Atli viðar engilbertsson
2013
Atli Viðar Engilbertsson var valinn listamaður hátíðarinnar árið 2013.
Atli Viðar Engilbertsson fæddist 1961 og býr og starfar á Akureyri. Hann er sjálfmenntaður fjöllistamaður, fjöllistamaður í orðsins fyllstu merkingu. Samhliða því að skapa myndlist skrifar hann smásögur, leikrit og ljóð, semur tónlist, skrifar í fjölmiðla og spilar á bassa, trommu og gítar. Atli Viðar hefur m.a. sýnt verk sín á Handverkshátíðinni á Hrafnagili, í Hafnarborg, á Safnasafninu, á Kjarvalsstöðum og í Korundi-safninu í Rovaniemi í Finnlandi. Leikrit hans, Skyrturnar, var sett á svið í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit.
Verk Atla Viðars bera sterklega höfundareinkenni hans og handbragð og eru alla jafna unnin úr því sem hendi er næst - pappakössum, umbúðum, netagirni, baggaböndum o.s.frv. Verk hans einkennast af sterkri tilfinningu fyrir formi og er ekkert efni öðru æðra í sköpun hans. Hann eyðir tugum klukkutíma í að líma saman og skera út pappaskúlptúra á borð við konur, karla og loftbelgi.
Segja má að meginstefið í list Atla sé að hver sem er geti blómstrað í listsköpun, hvort sem hann hefur til þess menntun eða efni, allt er hægt og ekkert stöðvar skapandi huga í að finna sinn farveg.
Textabrot eftir Ólaf J. Engilbertsson úr sýningarskrá List án landamæra árið 2013
Atli Viðar er með síðu fyrir myndlistina sína hér, síðu fyrir tónlistina sína hér og síðu fyrir leikverkin sín hér.