GÍA
2017
Gígja Guðfinna Thoroddsen, sem gengur undir listamannsnafninu Gía, var valin listamaður hátíðarinnar árið 2017.
Gía stundaði nám hjá Hring Jóhannessyni, listmálara í Myndlistaskóla Reykjavíkur 1975, Vallekille lýðháskólanum í Danmörku 1975 og sótti þriggja mánaða teikninámskeið í Árhúsum, Danmörku 1976 og leiklist hjá Helga Skúlasyni, leikara 1977. Gía hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Verk hennar eru í eigu aðila líkt og Safnasafnsins, Landspítalans, Krabbameinsfélagsins, Friðarseturins Höfða og fyrrum og núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Síðasta einkasýning hennar var sumarið 2016 á Safnasafninu á Svalbarðsströnd og hlutu verk hennar mikið lof.
Verk Gíu hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið. Mörg verka hennar byggja á hennar eigin reynslu að vera kona og þess að vera notandi geðheilbrigðiskerfisins. Hún gerir málverk og teikningar með fjölbreyttu myndefni, m.a. af þekktu fólki úr samtímanum og mannkynssögunni. Þannig má t.d. nefna að þegar Dagur B. Eggertsson tók við sem borgarstjóri málaði Gía og færði honum andlitsmynd af honum sem hangir á skrifstofu borgarstjóra. Gía notast við óhefðbundna liti í málverkum sínum á borð við gull, silfur og kopar.