listamaður listar án landamæra 2023

Sindri Ploder

Frá stofnun Listar án landamæra hefur hátíðin valið einn framúrskarandi listamann úr röðum fatlaðra listamanna sem listamann hátíðarinnar.

Sindri Ploder hefur verið valinn listamaður Listar án landamæra árið 2023. Einkasýningin hans Ef ég væri skrímsli opnar í Hafnarborg 14. september og stendur til 15. október.

FACEBOOK VIÐBURÐUR HÉR

Sindri á glæsilegan feril að baki sér. Hann byrjaði opinberlega að taka þátt í ýmsum sýningum árið 2016 þegar hann átti þátt í hönnun leikmyndar tékknesks leikhúss (Studio hrdinu) fyrir leikgerð á Skugga-Baldri eftir Sjón sem sýnt var í Hafnarhúsinu nokkrum sinnum og var í sýningu í Prag fram á haust 2022.

Hann tók svo þátt í samsýningu á vegum Listar án landamæra og Hönnunarmars árið sama ár þar sem hann vann með hönnuðinum Munda Vonda. Teikningar Sindra voru færðar yfir á ullarteppi sem Mundi hannaði. Sindri tók einnig þátt í List án landamæra 2019 þar sem hann sýndi ullarteppin og nýja tréskúlptúra. Einnig sýndi hann með List án landamæra í Bókasafni Seltjarnarness í október 2020. Fyrsta einkasýning hans var í Listasal Mosfellsbæjar janúar – febrúar 2021 og hét sú sýning Tilverur. Í desember 2021 tók hann þátt í samsýningu í Núllinu (Bankastræti) ásamt öðrum ungum listamönnum. Í október – desember 2022 tók hann þátt í samsýningu Listar án landamæra í Gerðubergi Margir heimar – allskonar líf.

Í janúar 2023 opnaði sýningin Brot af annars konar þekkingu Í Nýlistasafninu (NÝLÓ). Sýningin var unnin af tékkneska galleríinu MeetFactory í samstarfi við List án landamæra og NÝLÓ. Á sýningunni voru erlent og íslenskt lsitafólk og Sindri sýndi þar þrjá tréskúlptúra.

Hann var vorönn 2019 í Myndlistarskólanum í Reykjavík þar sem hann sótti námskeið í myndlist og tók þátt í samsýningu á þeirra vegum. Vorið 2020 var hann á listnámsbraut hjá Fjölmennt ásamt því að vinna í Bjarkarási.

Sindri hefur alltaf haft gaman að því að teikna og um 12 ára aldur fóru teikningarnar hans að taka á sig þá persónulegu mynd sem einkennir þær í dag. Hann hefur aðallega einbeitt sér að andlitsmyndum sem eru mjög auðþekkjanlegar, afar sérstakar og svipsterkar.

Hann hefur einnig gert tilraunir með tréskúlptúra þar sem hann útfærir andlitsformið í þrívídd. Þá hefur hann einnig unnið myndir á keramik, mósaík, og textíl. Hans helsta ástíða eru þó teikningar með fínum tússpenna á pappír og eru flest hans listaverk unnin á þann hátt.

Sindri eyðir mestu af sínum frítíma í að teikna, hvort sem er heima eða annarsstaðar og er fljótur að koma sér upp vinnuaðstöðu, ekki bara á ferðalögum heldur tekur hann liti með sér nánast allt sem hann fer hvort sem það eru bara óformleg matarboð, heimsóknir eða lengri ferðir. Einu sinni tók hann tússliti með sér upp í kirkjugarð vegna þess að honum leiddist að fara þangað til þess að nostra við leiði og ætlaði að tryggja það að hann hefði eitthvað að gera. Útkoman varð nokkrar myndir á servéttur úr hanskahólfinu frá vinsælli lúgusjoppu.

 
 

Sýnishorn af verkum Sindra