Einar Baldursson

 
 
Einar Baldursson /ljósmynd: Pétur Thomsen

Einar Baldursson /ljósmynd: Pétur Thomsen

Einar Baldursson fæddist árið 1970. Einar fluttist ungur til Sólheima í Grímssnesi. Einar hefur starfað á öllum vinnustofum Sólheima, listasmiðju, trésmiðju, vefstofu og kertagerð en lengst af í leirgerðinni nú í seinni tíð. Hann hefur stundað tónlistarnám á Sólheimum og tekið þátt í uppsetningum leikfélags Sólheima. Einar hefur tekið þátt í mörgum samsýningum vinnustofanna á Sólheimum. Einar hefur fengið mikla umfjöllun og viðurkenningu fyrir verk sín og var hann valinn listamaður Listar án landamæra 2009 og voru verk unnin út frá teikningum hans þá sýnd í Norræna húsinu. Einar tók einnig þátt í samsýningunni Af hjartans list í Gerðubergi 2014.

Einar teiknar mjög mikið og hefur hann mótað með sér sterkan persónulegan stíl. Hann teiknar fast og ákveðið og verða teikningar hans sem ávalt eru fígúratívar nær geometrískar ásýndar. Því línur eru gjarnan hafðar tvöfaldar jafnvel þrefaldar og fara oft láréttar og lóðréttar yfir hverjar aðrar. Einar er nákvæmur og athugull og má segja að það komi einnig fram í flugvélaleirskúlptúrunum hans, þar sem hinum ýmsu hlutum flugvéla eru gerð góð skil.Teikningar hans eru lifandi og tærar.

Einar sýnir teikningar og skúlptúra af flugvélum á List án landamæra 2019.