FRÉTTABRÉF - Febrúar

 

Janúarmánuður og byrjun febrúar hafa verið viðburðaríkir hjá List án landamæra. Við opnuðum sýningu í Nýlistasafninu, auglýstum eftir tilnefningum á listafólki hátíðarinnar 2023, fengum styrki frá Menningar- og viðskiptarráðuneyti, Reykjavíkurborg og Hinu húsinu.

Við erum búin að eiga frábær samtöl við sýningastaði og samstarfsaðila okkar og hlökkum við mikið til að segja ykkur meira frá því á næstu mánuðum.


Opnun sýningar í NÝLÓ

Sýningin Brot af annars konar þekkingu opnaði í Nýlistasafninu þann 26. janúar síðastliðinn með pompi og prakt. Hátíðin vill óska listafólkinu og listrænum stjórnendum hjartanlega til hamingju með sýninguna. Sýningin var samstarfsverkefni MeetFactory í Tékklandi, Nýlistasafnsins og Listar án landamæra. Við vonumst eftir því að list fatlaðs listafólks rati aftur inn í jafn glæsilegt safn og Nýlistasafnið og fögnum því góða samtali sem hefur átt sér stað.

The exhibition was organised within the partnership between Art Without Borders and MeetFactory and supported by the people of Iceland, Liechtenstein and Norway through the EEA Grants and the Ministry of Culture of the Czech Republic.

- https://www.nylo.is/en-us/exhibitions/brot-af-annars-konar-%C3%BEekkingu - www.meetfactory.cz
- eeagrants.org


Auglýsum eftir listafólki og listhópum í tvo flokka í ár

Á afmælisári hátíðarinnar munum við breyta af vananum og velja listafólk eða listhópa í tveimur flokkum. Hægt er að tilnefna með því að fylla út formið neðst á þessari síðu hér.

Tilkynnt verður um val í mars eftir að dómnefnd hefur lokið störfum.

Hægt er að tilnefna (stinga upp á) listafólki og listhópum í þessa tvo flokka:

  • Sviðslistir og tónlist 

    • Þau sem falla í þennan flokk eru: Leikarar, leikhópar, handritshöfundar, rithöfundar og ljóðskáld, danslistafólk, danshöfundar og danshópar, sirkus listafólk eða sirkus lista hópar, leikstjórar, kvikmyndagerðafólk og hópar, tónlistarfólk, hljómsveitir, kórar, plötusnúðar.

  • Myndlist og hönnun

    • Þau sem falla í þennan flokk eru: Myndlistafólk, myndlistahópar og hönnuðir sem vinna með ólíkan efnivið eins og til dæmis olíu, akríl, keramík, tréverk, textíl, ljósmyndir og videóverk og annan efnivið (listinn er ekki tæmandi). 


Hægt er að tilnefna til og með 17. febrúar


Stór stund

Þann 9. febrúar undirritaði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, samning við hátíðina upp á 6 milljóna króna árlegt framlag frá ráðuneytinu til næstu þriggja ára.  Ríkisstjórn Íslands leggur auk þess fram tvær milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til hátíðarinnar á afmælisárinu. 

Þessi styrkur er afar mikilvægur fyrir áframhaldandi starfsemi hátíðarinnar svo ekki sé talað um þá viðurkenningu sem hlýst af honum.

Við þökkum ráðuneytinu og Lilju Alfreðsdóttur kærlega fyrir og hlökkum til samstarfsins.


Á myndinni eru (frá vinstri Íris Stefanía Skúladóttir, Ragnheiður Árnadóttir fyrir hönd Hins hússins og Jóhanna Ásgeirsdóttir)

Hitt Húsið og hátíðin

Í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar veitti Hitt Húsið okkur sérstakan afmælisstyrk. Þessi styrkur mun fara í að halda veglega afmælisveislu haustið 2023.  Hitt húsið hefur fylgt hátíðinni frá fæðingu og viljum við þakka fyrir alveg hreint frábært samstarf gegnum árin.


Kristján Karl myndlistarmaður

GÖTUSTRIGI, götulistahátíð í júní

Í janúar hlaut List án landamæra styrk frá Reykjavíkurborg fyrir verkefninu Götustriginn sem listamaðurinn Kristján Karl leiðir. Hátíðin er hugsuð sem götulistahátíð sem mun eiga sér stað sumar 2023 á vegum Listar án landamæra í samstarfi við Landssamtökin Geðhjálp, Hlutverkasetur, Hugarafl og fleiri félög sem vinna í þágu geðfatlaðra. Á hátíðinni mun götulistafólk bjóða hópum og almenningi velkomið í samsköpun listaverks í opinberu rými.

 
List án landamæra