Opið kall: Auglýst eftir listafólki til að sýna í Gerðubergi á hátíðinni í haust
List án landamæra auglýsa eftir listafólki til að sýna á hátíðinni 2022!
Þemaið er Margir Heimar, allskonar líf.
Öll geta sótt um með hvernig list sem er: tónlist, myndlist, leiklist, dans, sögur, ljóð eða hvað sem er annað. Úr umsóknum verður valið inn í sýningar og viðburði í Gerðubergi á dagskrá List án landamæra í október 2022.
En hvað þýðir Margir heimar, allskonar líf?
Á þessari sýningu viljum við hjá List án landamæra safna saman listafólki með allskonar ólíka sýn á heiminn. Í gegnum listina er hægt að draga fram það sem er fallegt í hversdagsleikanum en líka hægt að gagnrýna og benda á það sem er ekki svo frábært við samfélagið í dag. Það er líka hægt að ímynda sér nýja heima, ævintýra heim eða ímynda sér hvernig framtíðin verður.
Kveikjan að þemainu er hugmyndin um aðrar víddir, að til séu margir hliðstæðir raunveruleikar. Margar vísindaskáldsögur, kvikmyndir og teiknimyndasögur fjalla um þann möguleika að hoppa milli alheima og hitta sjálfan sig í öðrum heimi. En svo er líka hægt að hugsa sér, til dæmis þegar maður situr í strætó eða kaupir í matinn, að allt fólkið sem maður sér hefur sína flókna og fallegu sögu að segja. Öll upplifum við heiminn á ólíkan hátt, búum á vissan hátt í okkar eigin heimi, en berum samt ábygð til hvors annars og ættum að vinna saman að betri heimi.
Býrð þú til list um það hvernig þú sérð heiminn? Býrð þú til list um ævintýra heim? Sendu þá inn umsókn!
Það má alltaf biðja um hjálp með að senda inn umsókn með að hringja í 6918756 eða senda póst á info@listin.is
Í umsókn skal standa:
Nafn listamanns
Tegund listaverks (dans, gjörningur, málverk, tónlist, ljóð?)
Sýnishorn af verki
Ef það er dans eða leiklist má senda myndband
Ef þú átt ekki myndband af dansinum eða leiklistinni þá má líka senda texta sem segir frá hugmyndinni á bakvið dansinn eða leiklistina
Ef það er ljóð eða saga skal senda texta
Ef það er tónlist skal senda upptöku af tónlistinni
Ef það er myndlist (málverk, teikning, skúlptúr) skal senda mynd af verkinu eða verkunum ef þau eru fleiri en eitt
Sendu inn umsókn í tölvupósti (info@listin.is) eða í eyðublaðið hér að neðan!