Samstarf Listar án landamæra um fyrsta hlaðvarp um mannréttindi fatlaðra á Íslandi
MANNRÉTTINDI FATLAÐRA
FYRSTA HLAÐVARP UM MANNRÉTTINDI FATLAÐRA Á ÍSLANDI
Mannréttindi fatlaðra er nýtt hlaðvarp og fræðsluerindi, sem þau Aileen Soffía Svensdóttir og Haukur Guðmundsson sjá um. Hlaðvarpið er hið fyrsta á Íslandi um mannréttindi fatlaðra.
Markmið með hlaðvarpinu er að auka vitund og þekkingu á mannréttindum fatlaðra.
Í hlaðvarpinu munu Aileen og Haukur taka viðtöl við fjölmargt fólk í íslensku samfélagi í því augnamiði að varpa ljósi á stöðu fatlaðra í samfélaginu og ræða um hvernig hana megi bæta.
Töluverð áhersla verður lögð á skapandi þætti í lífi fatlaðra, listsköpun og menningu. Talað verður við fatlaða og ófatlaða listamenn, forstöðumenn menningarstofnana, menningarfjölmiðlafólk og listunnendur.
Hlaðvarpið er unnið í samstarfi við List án landamæra.
Hlaðvarpið: https://soundcloud.com/mannr-ttindi-fatla-ra
Um stjórnendur hlaðvarpsins:
Aileen Soffía Svensdóttir er fyrrverandi formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun, og hefur starfað fyrir félagið um árabil. Aileen hefur setið sem fulltrúi félagsins í stjórn Listar án landamæra og Landssamtakana Þroskahjálpar. Aileen stundar söngnám í Söngskóla Sigurðar Dementz.
Haukur Guðmundsson er varaformaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun. Hann er einnig í stjórn Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar. Haukur var áður nemi í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun í HÍ, og valdi að vinna lokaverkefni sitt með Aileen í Átaki.
Haukur og Aileen starfa bæði hjá Ási Styrktarfélagi við Vinnu og Virkni í Stjörnugróf. Þau hafa bæði tekið virkan þátt í fjölda nefnda og verkefna á vegum félaga er snúa að réttindabaráttu fyrir fólk með þroskahömlun.
Verið velkomin að fylgja síðu hlaðvarpsins á Instragram: www.instagram.com/mannrettindifatladra/
Verið velkomin að hafa samband við umsjónarmenn hlaðvarpsins: mannrettindifatladra@gmail.com