Guðlaug Elísabet Jónatansdóttir

 
 
Guðlaug Elísabet Jónatansdóttir /ljósmynd: Pétur Thomsen

Guðlaug Elísabet Jónatansdóttir /ljósmynd: Pétur Thomsen

Guðlaug Elísabet Jónatansdóttir fæddist árið 1950. Guðlaug gekk í skóla bæði í Brautarholti að Skeiðum og í Vestmannaeyjum. Guðlaug hefur búið og starfað á Sólheimum í Grímsnesi í fjöldamörg ár. Guðlaug hefur unnið á vefstofu, listasmiðju, leirgerð, kertagerð og trésmiðju Sólheima. Hún hefur tekið mikinn þátt í öllu listrænu starfi á Sólheimum og verið í Sólheimakórnum og bjöllukór Sólheima. Hún er í leikfélagi Sólheima og hefur tekið þátt í nær öllum uppsetningum þess og sýnt m.a. í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Madríd á Spáni. Hún hefur sótt mörg námskeið hjá Fjölmennt á Selfossi og stundað tónlistarnám á Sólheimum. Guðlaug hefur átt verk á mörgum samsýningum vinnustofa Sólheima. Hún hefur tekið þátt í sýningum á vegum Listar án landamæra, bæði átt verk á nokkrum Ráðhússýningum hátíðarinnar og sýnt á sýningunni Grösugir strigar í Þjóðminjasafni Íslands 2013. Þá tók hún þátt í samsýningunni Af hjartans list í Gerðubergi 2014. 

Í verkum sínum hleður Guðlaug gjarnan upp litum og formum. Útsaumsverk hennar verða að abstrakt litaflæði, hlaðin upp af margskonar litum og litatónum. Teikningar hennar eru hins vegar fígúratívar.  Teikningarnar eru ekki eingöngu hlaðnar ríkulegu litaflæði heldur verða oft til hús með óteljandi gluggum sem jafnvel eru umkringd garði með óteljandi blómum eða trjám. Guðlaug vinnur í miklu flæði og oft verður til eins konar fylling í litum og sögusköpun, allt mjög ríkulegt.

Á List án landamæra 2019 mun Guðlaug sýna útsaumsverk.