Kristján Ellert Arason

 
 
Kristján Ellert Arason | ljósmynd: Pétur Thomsen

Kristján Ellert Arason | ljósmynd: Pétur Thomsen

Kristján Ellert Arason er fæddur árið 1958. Fyrstu ár ævi sinnar ólst hann upp í Mosfellssveit en flutti síðar til Reykjavíkur. Hann hefur stundað nám við Stýrimannaskólann, Höfðaskóla og Öskjuhlíðaskóla. Síðustu tíu árin hefur hann unnið að myndlist á vinnustofum Sólheima. Kristján hefur sýnt verk sín á fjölda samsýninga á Sólheimum. Hann hefur einnig tekið þátt í sýningum á vegum Listar án landamæra og átt þar verk á Ráðhússýningum listahátíðarinnar og hefur sýnt á samsýningunni Grösugir strigar í Þjóðminjasafni Íslands 2013. Kristján Ellert tók þátt í samstarfsverkefni á sýningu Listar án landamæra á Hönnunarmars árið 2016. Hann vann þar í samstarfi við fatahönnuðinn Eygló að kjól. Árið 2018 vann Kristján að öðru samstarfsverkefni með Loga Höskuldssyni á vegum Listar án landamæra. Sýningin þeirra, Kristján og Loji umpotta, opnaði í Listasal Mosfellsbæjar og hlutu verk þeirra mikið lof.

 

Í list sinni hefur Kristján Ellert unnið mest með útsaum. Kristján Ellert vinnur yfirleitt þematengt. Hann teiknar kannski seríu af húsum, fjöllum eða frægu fólki. Yfirleitt teiknar hann fyrst mynd á blað sem síðan er færð yfir á srigann. Hann fylgir nær alltaf teikningunni í lit og línum. Vandvirkni einkennir handbragð Kristjáns Ellerts, hann saumar út lítil varfærnisleg saumspor og vinnur lengi að hverri mynd.

 

Á List án landamæra 2019 mun Kristján Ellert sýna útsaumsverk af tónlistarfólki.