Listamenn 2020
helga matthildur viðarsdóttir
Frá stofnun listahátíðarinnar List án landamæra hefur hátíðin valið einn framúrskarandi listamann úr röðum fatlaðra listamanna sem listamann hátíðarinnar
Í ár er það Helga Matthildur Viðarsdóttir sem hefur orðið fyrir valinu sem listamaður hátíðarinnar 2020.
Helga Matthildur Viðarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1971 og býr í Reykjavík. Hún hefur unnið að list sinni í nokkur ár undir handleiðslu listkennara hjá Styrktarfélaginu Ás og sótt þar vatnslitanámskeið og námskeið í teikningu.
Einkasýning á verkum Helgu Matthildar verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 23. október 2020 og verður opin til 13. nóvember 2020.
Helga Matthildur var valin sem listamaður hátíðarinnar 2020 úr 16 innsendum tillögum. Í valnefnd sátu Birta Guðjónsdóttir-listrænn stjórnandi Listar án landamæra 2020, Atli Már Indriðason-listamaður hátíðarinnar 2019, Eggert Pétursson myndlistarmaður-fyrrum sýnandi í List án landamæra, Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður-fulltrúi Hönnunarmiðstöðvar, Kristinn Guðbrandur Harðarson myndlistarmaður-fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna.
Hér má horfa og hlusta á umfjöllun um list Helgu Matthildar í sjónvarpsþættinum Með okkar augum á RÚV, frá 16. september 2020: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/med-okkar-augum/29394/8oaap6
Ljósmyndina af Helgu Matthildi tók Guðmundur Skúli Viðarson, ljósmyndari, bróðir hennar.
helena ósk jónsdóttir
Helena Ósk Jónsdóttir er ung listakona búsett á Akureyri.
Hún hefur teiknað mikið frá barnæsku og þróaði snemma með sér afar sérstakan stíl í teikningu, einkum í myndum af hestum sem hún kynntist í æsku og hefur mikið yndi af.
Helena Ósk hefur góða tilfinningu fyrir stemningu og biður oft nærstadda að hlusta á áhöldin þegar hún teiknar, að nema skrjáf í blaði og hvernig blýantur og litir ferðast um það.
Helena Ósk lauk námi á starfsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2019 og nam þar myndlist hjá Örnu Valsdóttur myndlistarkonu. Hún sinnir listsköpun sinni á Hæfingarstöðinni á Akureyri og með stuðningi fjölskyldu sinnar heimavið.
Einkasýning Helenu Óskar á hátíðinni verður fyrsta sýning á verkum hennar í Reykjavík og verða sýndar teikningar og skúlptúrar hennar af hestum, svo og málaðir fjöldaframleiddir plasthestar sem hún hefur farið fimum höndum um og sveigt að listrænum áhuga sínum.
Ljósmyndin er tekin heima hjá Helenu Ósk þar sem hún sést mála á fjöldaframleiddan plasthest.
björn traustason
Björn Traustason er listamaður sem notar teikninguna sem sinn helsta miðil. Hann teiknar einkum vélar en hann hefur haft sérstakan áhuga á hverskyns vélum frá barnæsku, landbúnaðartækjum, gröfu- og dráttarvélum og flugvélum. Áhugann á flugvélum hefur Björn fengið frá föður sínum og afa, sem báðir hafa átt og flogið litlum flugvélum og er Björn því vel kunnugur slíkum vélakosti. Á ferðum sínum um Ísland tekur Björn ætíð ljósmyndir af vélum sem hann nýtir þegar heim er komið til þess að teikna eftir, ekki síst til þess að halda til haga mörgum af þeim nákvæmu þáttum, s.s. heiti, númerum og litasamsetningum, sem sjá má á myndum hans. Hann safnar einnig litlum eftirmyndum af vélum úr plasti eða málmi, sem hann notar til að teikna eftir.
Björn teiknar með blýanti og litblýanti en þannig nær hann að koma mikilvægum smáatriðum til skila, auk þess sem hann getur haft litina og pappír með sér hvert sem er. Hann er afar iðinn við teikninguna og skipta teikningar hans líklega hundruðum. Í Hannesarholti má sjá tuttugu nýlegar teikningar hans.
Það er við hæfi að einkasýning Björns eigi sér stað í Hannesarholti, fyrrum heimili Hannesar Hafstein, sem varstórbrotinn stjórnmálamaður og framsýnn athafnamaður er beitti sér fyrir mörgum framfaramálum í landinu og var maður framkvæmda. Hannes var sem kunnugt er fyrsti ráðherra Íslands og sinnti því embætti á árunum 1904-1917. Hannes lést skömmu áður en framfarafólk á Íslandi hóf að nota þann vélakost er Björn Traustason sýnir okkur í listaverkum sínum. Ætla má að Hannes hefði orðið hrifinn af þessum vélum og þeim framförum í landbúnaði og á öðrum sviðum samfélagsins, sem þær höfðu í för með sér.
pálína erlendsdóttir
Pálína Erlendsdóttir sýnir, á hátíðinni, nýlegar blýantsteikningar á samsýningu ásamt Elfu Björk Jónsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Hún fluttist ung til Sólheima í Grímsnesi og hefur búið þar og starfað nær alla sína tíð.
Pálína hefur unnið á öllum vinnustofum Sólheima, listasmiðju, vefstofu, trésmiðju, leirgerð og kertagerð. Hún er í Leikfélagi Sólheima og hefur tekið þátt í flestum leiksýningum þess og sýnt með því m.a. í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Þá hefur hún verið í tónlistarnámi á Sólheimum og verið í Sólheimakórnum og bjöllukór Sólheima. Hún hefur sótt ýmis námskeið hjá Fjölmennt á Selfossi.
Pálína hefur tekið þátt í mörgum samsýningum vinnustofanna á Sólheimum og þá m.a. sýnt á samsýningu í Norræna húsinu á vegum Listar án landamæra 2009 og samsýningu í Gerðubergi 2014. Árið 2018 voru nokkur prjónaverk Pálínu valin á norræna farand-samsýningu sem ferðaðist um öll norðurlöndin, svo og á samsýningu Listar án landamæra 2019 í Gerðubergi.
Ljósmyndin af Pálínu er tekin af Pétri Thomsen.