Listamenn 2020

 
Helga_Matthildur_low-res_Guðmundur S Viðarsson.jpg

helga matthildur viðarsdóttir

Frá stofnun listahátíðarinnar List án landamæra hefur hátíðin valið einn framúrskarandi listamann úr röðum fatlaðra listamanna sem listamann hátíðarinnar
Í ár er það Helga Matthildur Viðarsdóttir sem hefur orðið fyrir valinu sem listamaður hátíðarinnar 2020.
Helga Matthildur Viðarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1971 og býr í Reykjavík. Hún hefur unnið að list sinni í nokkur ár undir handleiðslu listkennara hjá Styrktarfélaginu Ás og sótt þar vatnslitanámskeið og námskeið í teikningu.
Einkasýning á verkum Helgu Matthildar verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 23. október 2020 og verður opin til 13. nóvember 2020.
Helga Matthildur var valin sem listamaður hátíðarinnar 2020 úr 16 innsendum tillögum. Í valnefnd sátu Birta Guðjónsdóttir-listrænn stjórnandi Listar án landamæra 2020, Atli Már Indriðason-listamaður hátíðarinnar 2019, Eggert Pétursson myndlistarmaður-fyrrum sýnandi í List án landamæra, Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður-fulltrúi Hönnunarmiðstöðvar, Kristinn Guðbrandur Harðarson myndlistarmaður-fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna.


Hér má horfa og hlusta á umfjöllun um list Helgu Matthildar í sjónvarpsþættinum Með okkar augum á RÚV, frá 16. september 2020: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/med-okkar-augum/29394/8oaap6

Ljósmyndina af Helgu Matthildi tók Guðmundur Skúli Viðarson, ljósmyndari, bróðir hennar.

Helena Ósk.jpg

helena ósk jónsdóttir

Helena Ósk Jónsdóttir er ung listakona búsett á Akureyri.
Hún hefur teiknað mikið frá barnæsku og þróaði snemma með sér afar sérstakan stíl í teikningu, einkum í myndum af hestum sem hún kynntist í æsku og hefur mikið yndi af.
Helena Ósk hefur góða tilfinningu fyrir stemningu og biður oft nærstadda að hlusta á áhöldin þegar hún teiknar, að nema skrjáf í blaði og hvernig blýantur og litir ferðast um það.

Helena Ósk lauk námi á starfsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2019 og nam þar myndlist hjá Örnu Valsdóttur myndlistarkonu. Hún sinnir listsköpun sinni á Hæfingarstöðinni á Akureyri og með stuðningi fjölskyldu sinnar heimavið.

Einkasýning Helenu Óskar á hátíðinni verður fyrsta sýning á verkum hennar í Reykjavík og verða sýndar teikningar og skúlptúrar hennar af hestum, svo og málaðir fjöldaframleiddir plasthestar sem hún hefur farið fimum höndum um og sveigt að listrænum áhuga sínum.

Ljósmyndin er tekin heima hjá Helenu Ósk þar sem hún sést mála á fjöldaframleiddan plasthest.

Björn Traustason.jpg

björn traustason

Björn Traustason er listamaður sem notar teikninguna sem sinn helsta miðil. Hann teiknar einkum vélar en hann hefur haft sérstakan áhuga á hverskyns vélum frá barnæsku, landbúnaðartækjum, gröfu- og dráttarvélum og flugvélum. Áhugann á flugvélum hefur Björn fengið frá föður sínum og afa, sem báðir hafa átt og flogið litlum flugvélum og er Björn því vel kunnugur slíkum vélakosti. Á ferðum sínum um Ísland tekur Björn ætíð ljósmyndir af vélum sem hann nýtir þegar heim er komið til þess að teikna eftir, ekki síst til þess að halda til haga mörgum af þeim nákvæmu þáttum, s.s. heiti, númerum og litasamsetningum, sem sjá má á myndum hans. Hann safnar einnig litlum eftirmyndum af vélum úr plasti eða málmi, sem hann notar til að teikna eftir. 

Björn teiknar með blýanti og litblýanti en þannig nær hann að koma mikilvægum smáatriðum til skila, auk þess sem hann getur haft litina og pappír með sér hvert sem er. Hann er afar iðinn við teikninguna og skipta teikningar hans líklega hundruðum. Í Hannesarholti má sjá tuttugu nýlegar teikningar hans.

Það er við hæfi að einkasýning Björns eigi sér stað í Hannesarholti, fyrrum heimili Hannesar Hafstein, sem varstórbrotinn stjórnmálamaður og framsýnn athafnamaður er beitti sér fyrir mörgum framfaramálum í landinu og var maður framkvæmda. Hannes var sem kunnugt er fyrsti ráðherra Íslands og sinnti því embætti á árunum 1904-1917. Hannes lést skömmu áður en framfarafólk á Íslandi hóf að nota þann vélakost er Björn Traustason sýnir okkur í listaverkum sínum. Ætla má að Hannes hefði orðið hrifinn af þessum vélum og þeim framförum í landbúnaði og á öðrum sviðum samfélagsins, sem þær höfðu í för með sér.

Pálína Erlendsdóttir_PTH7873_cropped.jpeg

pálína erlendsdóttir

Pálína Erlendsdóttir sýnir, á hátíðinni, nýlegar blýantsteikningar á samsýningu ásamt Elfu Björk Jónsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Hún fluttist ung til Sólheima í Grímsnesi og hefur búið þar og starfað nær alla sína tíð.
Pálína hefur unnið á öllum vinnustofum Sólheima, listasmiðju, vefstofu, trésmiðju, leirgerð og kertagerð. Hún er í Leikfélagi Sólheima og hefur tekið þátt í flestum leiksýningum þess og sýnt með því m.a. í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Þá hefur hún verið í tónlistarnámi á Sólheimum og verið í Sólheimakórnum og bjöllukór Sólheima. Hún hefur sótt ýmis námskeið hjá Fjölmennt á Selfossi.

Pálína hefur tekið þátt í mörgum samsýningum vinnustofanna á Sólheimum og þá m.a. sýnt á samsýningu í Norræna húsinu á vegum Listar án landamæra 2009 og samsýningu í Gerðubergi 2014. Árið 2018 voru nokkur prjónaverk Pálínu valin á norræna farand-samsýningu sem ferðaðist um öll norðurlöndin, svo og á samsýningu Listar án landamæra 2019 í Gerðubergi.

Ljósmyndin af Pálínu er tekin af Pétri Thomsen.

Brandur Karlsson lósmyndar. Hrafn Jónsson-Krummi_2_lowres.jpeg

Myndverk Brands Bjarnasonar Karlssonar á einkasýningu hans Sýnileiki fjær og nær í Ráðhúsi Reykjavíkur eru hluti af heilum heimi, sem hann skapar með því að mála, og er sá heimur byggður á þeim raunverulega- og skáldaða heimi sem markar sviðsmynd lífs hans. Þessir heimar mæta svo þeim heimum er áhorfendur verkanna þekkja sem umgjörð eigin lífs og þannig skapast með sýningunni samræða án orða, áhugavert landslag óþrjótandi möguleika.

Í þessari einkasýningu á nýjum verkum íhugar Brandur sjónarhorn og hvernig þjálfun augans til að nema form og blæbrigði í umhverfinu mótast af afstöðunni, nálægð og fjarlægð augans frá því sem horft er á.

Þessar kannanir gerum við á einfaldari máta snemma í lífinu þegar augun sem líffæri eru í mótun. Við áttum okkur á hlutverki þeirra í þroskun fjarlægðaskyns okkar og förum að nota þetta skynfæri til þess að skynja líkama okkar, massann, í hlutfalli við -og afstöðu gagnvart umhverfinu.

Brandur málar með munninum og þjálfar þannig fjarlægðaskyn sitt stöðugt sem óaðskiljanlegan hluta listsköpunar sinnar þar eð sjónsvið hans nemur nær sama svæði og myndflöturinn þegar hann strýkur penslinum eftir striganum. Hann horfir fyrst inn á við, þá langt frá sér og svo á myndflötinn afar nálægt andliti sínu á meðan hann málar. Ef til vill mætti líta á þessa þríeiningu sjónrænna athugana hans við málunina sem nokkurskonar ritúal. Í myndunum mætir sú færni er Brandur hefur þjálfað við að beita munninum til þess að beita pensli sem ber lit á myndflötinn, skynjunarþjálfun hans í að færa stöðugt athygli augans að því sem sýnilegt er í nálægð og því sem sýnilegt er í fjarlægð, og þriðja augans að því sem aðeins innsæi hans sjálfs hefur aðgang að.

Um list sína og stöðu sína sem fatlaður listamaður segir Brandur: Ég varð listamaður þegar ég áttaði mig á því að ég ætti í samræðu sem væri handan orðanna. Það er flókið að ná utanum og skilja þessa tegund samræðu. Líkt og stafrófið sé óendanlegt. Líkt og ef tungumál okkar teygði sig framhjá orðunum til þess að ná utanum allt sem er. Það er hægt að nota hvað sem er til þess að tjá hugsanir eða tilfinningar, til þess að segja sögu. Sum málverka minna eru af þekktum stöðum séð langt frá. Mér líður eins og það sé á einhvern hátt mikilvægur þáttur í þessari sýningu. Ég staðset mig einhvers staðar þar sem ég er sýnilegur, þegar ég mála áberandi byggingar í höfuðborginni og nágrenni
Útkoman er einhverskonar endurspeglun á því hvað það er að vera til í Reykjavík.

Listaverk mín, sem ég mála með munninum, eru tjáning mín á því að vilja sjást sem fatlaður listamaður. Ég er furðulegur, sérkennilegur vegna þess að ég get ekki notað hendurnar til að mála með líkt og venjulegt fólk. Ég og verkin mín erum í fyrstu skoðuð í gegnum þennan ramma, rétt eins og ég er meðvitaður um þegar ég horfi á byggingarnar langt frá. En svo, þegar fólk venst mér og mínum takmörkunum, þá hættir það að skoða verk mín í gegnum þann ramma sérstöðu minnar og byrjar að skoða verkin sem listaverk, líkt og þau væru eftir hvern annan listamann. Þessi þróun og breyting til normalíseringar myndi ekki eiga sér stað ef ég gerði mig ekki sýnilegan.

Brand­ur Bjarna­son Karls­son er frum­kvöð­ull, lista­mað­ur og bar­áttu­mað­ur fyr­ir rétt­ind­um fatl­aðra. Hann ferð­ast um heim­inn, þrátt fyr­ir lé­legt að­gengi, mál­ar með munn­in­um og stjórn­ar tölvu með aug­un­um.

Hann hefur málað með munninum í um áratug og er fulltrúi Íslands í alþjóðlegum samtökum munnmálara, sem telja um 800 listamenn frá 80 löndum. Brand­ur gekk í Fjöl­braut í Breiðholti og Mennta­skól­ann í Reykja­vík, lauk tveim­ur árum í líf­fræði í há­skóla og auk þess lagði hann stund á félags- og mann­fræði. Hann var að ljúka fyrsta ári í eðlis­fræði þegar hann veikt­ist fyrir um áratug. Hann hefur síðan verið lamaður, bund­inn við hjóla­stól og get­ur hvorki beitt hönd­um né fót­um. Brandur hefur meðal annars vakið athygli á aðgengismálum fatlaðra og komið að ýmsum frumkvæðisverkefnum sem miða að því að bæta samfélagið og er þróunarstjóri hjá Frumbjörg, frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar.

Ljósmyndin af Brandi er tekin af Hrafni Jónssyni-Krumma

krummz-1.jpg

“The quiet sense of something lost”
-Tennyson

SKRÖLT III
er einkasýning Hrafns Hólmfríðarsonar Jónssonar (Krumma), myndlistarmanns sem vinnur með ljósmyndir. Sýningin fer fram á vegum listahátíðarinnar List án landamæra.

Ljósmyndirnar í SKRÖLT III eru teknar á tímabilinu milli mars og september árið 2020 og marka þær þriðja kafla ljósmyndaverksins SKRÖLT.

Um verk sín segir Hrafn: Á þessum skrýtnu tímum SKRÖLT-i ég áfram og raða flóknum, jafn vel ókunnugum tilfinningum og hugsunum í ljósmynd. Þessi óþekkta stemmning sem myndaðist í samkomubanninu var kveikjan að þessu verkefni og hefur knúið mig áfram í þessu litlausa ástandi sem ríkir.

Mér fannst sú nálgun að nota mitt nærumhverfi sem “svið” liggja beint við þar sem ég og langflestir hafa tekist á við yfirstandandi faraldur í sínum afmarkaða radíus.

SKRÖLT er langtíma-ljósmyndaverkefni listamanns er tekur stöðugt ljósmyndir í öllum aðstæðum daglegs lífs og er með vélina á sér öllum stundum. Veigamestu þættir verkefnisins eru annarsvegar sú nálgun að upplifa lífið í gegnum ljósmyndalinsuna, á ánægjulegum svo og á krefjandi stundum, og hinsvegar að velja úr miklum fjölda mynda, þær sem fangað hafa örstundir er gestir sýningarinnar geta speglað sig og sína tilveru í, fengið annarskonar sýn á umhverfi sitt og mynstur í eigin lífi.

Þannig má líta á verkefnið sem heilandi og í senn sem listrænan óð til þeirrar undarlega flóknu tilveru sem við öll glímum við, með þau hlutverk helst að læra, vaxa, elska, byggja upp, bæta, skynja og miðla til annarra.

Hrafn hóf að fást við ljósmyndun sem leið til að takast á við upplifanir sínar sem fatlaður maður og endurspegla ljósmyndaverk hans persónulega, fagurlega uppbyggða og áhrifaríka nálgun hans á miðilinn; á ljósmyndina sem vettvang íhugunar og sem leið til að skilja sjálfan sig og heiminn.

Ljósmyndavélin er þannig stuðningsaðili listamannsins, gagnrýnandi hans og spegill á líf hans. Áminning fyrir hann og okkur öll um það að líf okkar er í kjarna sínum röð af hversdagslegum athöfnum, mynstrum sem við komum okkur upp, mynstrum sem við brjótum upp eða reynum að eyða með öðrum mynstrum. Sýning Hrafns er áminning um að líf okkar endurspeglar það sem við aðhöfumst í endurtekningunni og þær ákvarðanir að brjóta hana upp af og til til aukins lærdóms og vaxtar.

Á þessari fyrstu einkasýningu Hrafns sýnir hann nýleg ljósmyndaverk. Þessi verk hafa ekki verið sýnd áður og eru mynduð í nánasta umhverfi listamannsins, í Reykjavík.

Ljósmyndaverk Hrafns hafa í tvígang verið sýnd sem hluti af samsýningum Ljósmyndaskóla Reykjavíkur. Auk þess var Hrafn valinn sem þátttakandi í alþjóðlegu ljósmyndakeppninni Blurring The Linesí París, sem átti sér stað fyrr á þessu ári. Verk hans Skrölt III, sem sjá mátti á sýningunni í Gallery Porti við Laugaveg í Reykjavík, var meðal þeirra 33 ljósmyndaverka er dómnefnd þessara virtu ljósmyndaverðlauna þótti bera af, en alls voru verk 151 ljósmyndara úr forvali send inn til keppninnar. Verkið verður birt í veglegri útgáfu á vegum keppninnar ásamt hinum 32 úrvalsverkunum en útgáfan verður kynnt sérstaklega á Paris Photo listamessunni, sem haldin verður um miðjan nóvember 2020.

Hrafn Jónsson hóf ljósmyndanám við Ljósmyndaskólann 2017 en tók námsleyfi í eitt ár vegna ljósmyndaverkefnis í Accra í Ghana.

Sýning Hrafns í Gallery Porti er sérstaklega styrkt af Myndlistarsjóði og Reykjavíkurborg.

Ljósmyndin af Hrafni er sjálfsmynd.

Grótta Listap.jpg

ÞAÐ BERA SIG ALLIR VEL
Samsýning 30 listamanna í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi

List án landamæra býður upp á samsýningu fjölda listamanna í sýningarýminu Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi.

Á sýningunni er sjónum beint að tvívíðum og þrívíðum verkum, sem unnin hafa verið nýlega. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og er sýningunni ætlað að endurspegla alla þá breidd sem hinir 30 listamenn hennar spanna.
Listamennirnir eru frá ýmsum stöðum á landinu og vinna með allskyns aðferðir. Töluverð áhersla er lögð á mannslíkamann, form og formleysur hans. Einnig skipar fantasían stóran sess í sýningunni; undrafuglar, teiknimyndafígúrur, gyðjur og dísir, og svo Corona-veiran sjálf.

Nú á fordæmalausu ári sem einkennist af Covid-19 faraldri og breyttum samskiptaháttum okkar í kjölfar fjöldatakmarkana og sóttkvía, þá skipar listin mikilvægan sess í lífi okkar sem aldrei fyrr. En, á sama tíma hefur reynt á þolinmæði okkar fyrir því að þurfa að halda fjarlægð fólks á milli, sem hefur sett strik í reikninginn hvað varðar hinn dýrmæta sameiginlega vettvang til sköpunar sem myndlistarskólar og listvinnustofur eru og listamenn sýningarinnar eru eða hafa nýlega þátttakendur í.

En, blessunarlega eru listamenn gjarnan bjartsýnisfólk og á þessari sýningu fögnum við listinni, litunum og gleðinni sem listin veitir þeim sem skapa og ykkur hinum sem við bjóðum að njóta!

*Það bera sig allir vel
þótt úti séu stormur og él,
allt í góðu inni hjá mér,
lífið gott sem betur fer.


Sýnendur:

Andrea Gavern
Aníta Sól Sveinsdóttir
Atli Már Indriðason
Daníel Ólafsson
Einar Óli Benediktsson
Elfa Björk Jónsdóttir
Elín Sigríður María Ólafsdóttir
Frida Martins
Gísli Kristinsson
Glódís Erla Ólafsdóttir
Guðmundur Stefán Guðmundsson
Hildur Guðnýjardóttir
Hringur Úlfarsson
Ingi Rúnar Kjartansson
Ingimar Azzad Torossian
Kolbeinn Jón Magnússon
Lára Lilja Gunnarsdóttir
Marta Lind Vilhjálmsdóttir
Sindri Ploder
Sigrún Huld Hrafnsdóttir
Snædís Ósk Egilsdóttir
Steinar Svan Birgisson
Svana Fanney Karlsdóttir
Telma Axelsdóttir
Valdimar Leó Vesterdal
Valgarður Bent Jónsson
Vilmundur Örn Gunnarsson
Þorbjörg Ester Finnsdóttir
Þórir Gunnarsson - Listapúkinn

*Texti eftir Helga Björnsson og Braga Valdimar Skúlason (sunginn við lag Helga Björnssonar í hans flutningi 2020)

Myndin hér er teikning eftir Þóri Gunnarsson-Listapúkann, frá árinu 2020.

Steinar.jpg

Steinar Svan Birgisson er afkastamikill fjöllistamaður úr Hafnarfirði. Hann fæst jöfnum höndum við myndlist, tónlist, skrif og sviðslistir.
Snemma sumars 2020 sótti hann tvö námskeið í Opna Listaháskólanum, annarsvegar í gjörningalist hjá Ásdísi Sif Gunnarsdóttur myndlistarkonu, og hinsvegar leiklistarnámskeið hjá Bjarna Snæbjörnssyni leikara. Þátttaka Steinars í báðum námskeiðum hefur eflt hann mjög í listsköpun fyrir svið og er verkið hans á List án landamæra að hluta til afrakstur þess lærdómsferlis.
Gjörninga-sviðsverk Steinars Svan í Norræna húsinu er unnið frá grunni í samstarfi við List án landamæra, og er það sýnt í fyrsta sinn á hátíðinni. Verkið er frumraun hans í sviðslistum. Í samstarfinu við List án landamæra vinnur Steinar í fyrsta sinn með vídeómiðilinn, sem leikur stórt hlutverk í verkinu og mun án efa gera það í framhaldinu í listsköpun hans.
Í gjörninga-sviðsverki sínu fjallar Steinar Svan Birgisson á persónulegan hátt um sitt eigið líf og veruleika sinn sem fatlaðs manns og öryrkja, og um það áreiti sem birtist öryrkjum og mörgum öðrum í samfélaginu.

Um verk sitt og samstarfið við List án landamæra 2020 segir Steinar Svan: Það er mér einstakur heiður og gleðiefni að fá tækifæri hér og nú til þess að birta áhugasömum afrakstur sviðslista-vinnu minnar á árinu. List án landamæra hefur frá upphafi verið kærkominn vettvangur fatlaðs listafólks til birtingar á listsköpun sinni og ég er þakklátur fyrir stuðning og gott samstarf við hátíðina.

Steinar Svan er ötull þátttakandi í Soulflow Comedy; uppistandi kvenna og hinsegin fólks, sem á sér stað reglulega á Gauk á Stöng í Reykjavík. Hann hefur auk þess sýnt myndverk sín í Reykjavík, svo og á Ljósanótt og nú síðast í heimabæ sínum í Hafnarfirði.

Elfa.jpg

Verk Elfu Bjarkar Jónsdóttur á samsýningu ásamt Pálínu Erlendsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, eru nýleg málverk á striga. Einnig voru teikningar hennar sýndar á samsýningu í Gallerí Gróttu, svo og á samsýningu í Ásmundarsal, allt sem hluti af List án landamæra 2020.

Verk Elfu Bjarkar eru afar litrík og hún notar að miklu leyti grunnlitina, stór og skýr form og leyfir litadýrðinni að hafa gleðjandi og uppörvandi áhrif á áhorfendur. Í málverkum Elfu Bjarkar koma fyrir náttúruverur; fuglar og ýmiskonar plöntur, bæði tré og blóm sem sum hver finnast ekki í íslenskri náttúru.

Elfa Björk færir okkur einnig inn í óhlutbundna, abstrakt heima í sumum verka sinna. Í þeim verkum er líkt og við öðlumst sjónsvið arnarins og fljúgum beint inn í iður myndarinnar, inn í litahaf þar sem mynstur og ólíkar listasafmsetningar umfaðma okkur.

Segja má að myndheimur Elfu Bjarkar byggist á óhlutbundnum, abstrakt grrunni og skapast skemmtilegt samspil hins formræna og hins hlutbundna, fígúratífa þegar hún sækir sér fyrirmyndir, ýmist úr náttúrulífsbókum eða frá listaverkum annarra. Þegar hún skapar eftirmyndir af verkum annarra þá færir hún gjarnan myndefnið yfir í sinn sterka, einkennandi myndheim skýrra forma. Elfa Björk býr og starfar á Sólheimum í Grímsnesi.

Elfa Björk fékk fyrst tilsögn í myndlist þegar Alda Ármanna Sveinsdóttir, myndlistarkona kenndi myndlist í Skálatúnsheimilinu í byrjun árs 1972 en þá var Elfa Björk aðeins10 ára. Síðan þá hefur Elfa Björk fengið tilsögn í myndlist á námskeiðum hjá Öldu Ármönnu í Reykjavík, hjá Margréti Long, myndlistarkennara á Selfossi og verið á glerlistanámskeiði hjá Dagnýju Magnúsdóttur í glerlistasmiðjunni Hendur í Höfn í Þorlákshöfn.

Gísli.jpg

GÍSLI KRISTINSSON

Það hefur orðið að hefð Listar án landamæra að leiða saman í sýningasamstarf frábæra fatlaða og ófatlaða listamenn, sem ekki hafa unnið saman eða átt í samræðu áður.

Á sýningunni í listamannarekna sýningarýminu Midpunkt í Kópavogi tengjast í eilífum litaspíral nýleg listaverk fjögurra stórkostlegra listamanna; Önnu Jóelsdóttur, Arnars Ásgeirssonar, Erlu Bjarkar Sigmundsdóttur og Gísla Kristinssonar.
Listamennirnir hafa kynnst persónulega og kynnst verkum hvers annars í undanfara hátíðarinnar, eftir aðstæðum, hist í gegnum netið og deilt myndum af og upplýsingum um listsköpun sína.

Gísli Kristinsson er listamaður sem teiknar og málar miknn fjölda verka daglega af mikilli færni og elju. Myndefni hans eru af ýmsum toga en byggja gjarnan á símynstri og hefur hann mikið næmi fyrir uppbyggingu myndflatarins og litasamsetningum. Gísli hefur um árabil stundað listsköpun sína í undir handleiðslu list-leiðbeinenda í Hlutverkasetrinu í Reykjavík og hefur hingað til, að mestu, sýnt verk sín á sýningum í húsnæði þess.

Sýningin í Midpunkt endurspeglar það hversu áhugavert það getur verið að leiða saman ólík verk, sem eiga sér þó ákveðna snertifleti í formi, litanotkun og hugsun, og skapa áhugaverða sýningu fyrir gesti sem kemur á óvart og vekur áhuga.



Ljósmyndin af Gísla er tekin af Birtu Guðjónsdóttur.

Erla.jpg

ERLA BJÖRK SIGMUNDADÓTTIR

Það hefur orðið að hefð Listar án landamæra að leiða saman í sýningasamstarf frábæra fatlaða og ófatlaða listamenn, sem ekki hafa unnið saman eða átt í samræðu áður.

Á sýningunni í listamannarekna sýningarýminu Midpunkt í Kópavogi tengjast í eilífum litaspíral nýleg listaverk fjögurra stórkostlegra listamanna; Önnu Jóelsdóttur, Arnars Ásgeirssonar, Erlu Bjarkar Sigmundsdóttur og Gísla Kristinssonar.

Erla Björk var valin listamaður Listar án landamæra árið 2016. Hún býr og starfar á Sólheimum í Grímsnesi. Erla Björk er fjölhæf listakona sem ásamt myndlistinni stundar tónlistarnám, er í bjöllukór og starfar með leikfélagi Sólheima sem setur upp leiksýningar þar árlega.

Verk Erlu endurspegla kraftinn sem í henni býr, hún tjáir sig í ólíkum formum og listsköpun hennar býr yfir sterkum persónulegum stíl. Verk hennar eru annað hvort fígúratíf eða óhlutbundin formgerð, en ætíð einlæg, kraftmikil, tjáningarík og fögur.

Sýningin í Midpunkt endurspeglar það hversu áhugavert það getur verið að leiða saman ólík verk, sem eiga sér þó ákveðna snertifleti í formi, litanotkun og hugsun, og skapa áhugaverða sýningu fyrir gesti sem kemur á óvart og vekur áhuga.

Anna Jó.jpg

ANNA JÓELSDÓTTIR

Það hefur orðið að hefð Listar án landamæra að leiða saman í sýningasamstarf frábæra fatlaða og ófatlaða listamenn, sem ekki hafa unnið saman eða átt í samræðu áður.

Á sýningunni í listamannarekna sýningarýminu Midpunkt í Kópavogi tengjast í eilífum litaspíral nýleg listaverk fjögurra stórkostlegra listamanna; Önnu Jóelsdóttur, Arnars Ásgeirssonar, Erlu Bjarkar Sigmundsdóttur og Gísla Kristinssonar.
Listamennirnir hafa kynnst persónulega og kynnst verkum hvers annars í undanfara hátíðarinnar, eftir aðstæðum, hist í gegnum netið og deilt myndum af og upplýsingum um listsköpun sína.

Anna Jóelsdóttir hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að rannsaka mörk málverksins og einkennast verk hennar af óhefðbundinni efnisnotkun og könnun á samspili málverks og rýmis.
Hún vinnur með ólíkan efnivið, svo sem striga, þunnan gegnsæjan pappír, bækur og spýtur. Myndefnið er þó ávallt svipað og minnir gjarnan á heimskort eða borgarskipulagskort þar sem staðsetningarlínur eru teiknaðar með nákvæmum hætti á myndflötinn en um leið einkennast myndirnar af óreiðu og flöktandi hreyfingu.
Anna vinnur gjarnan á þann hátt að málverkin hennar vilja fara útúr rammanum og verða þrívíð í staðbundnum innsetningum. Þannig eltir hún efnivið sinn og sköpun og skapar með málverkinu þrívíðar innsetningar sem eiga í beinni samræðu við sýningarýmið.

Sýningin í Midpunkt endurspeglar það hversu áhugavert það getur verið að leiða saman ólík verk, sem eiga sér þó ákveðna snertifleti í formi, litanotkun og hugsun, og skapa áhugaverða sýningu fyrir gesti sem kemur á óvart og vekur áhuga.

Arnar.jpg

ARNAR ÁSGEIRSSON

Það hefur orðið að hefð Listar án landamæra að leiða saman í sýningasamstarf frábæra fatlaða og ófatlaða listamenn, sem ekki hafa unnið saman eða átt í samræðu áður.

Á sýningunni í listamannarekna sýningarýminu Midpunkt í Kópavogi tengjast í eilífum litaspíral nýleg listaverk fjögurra stórkostlegra listamanna; Önnu Jóelsdóttur, Arnars Ásgeirssonar, Erlu Bjarkar Sigmundsdóttur og Gísla Kristinssonar.
Listamennirnir hafa kynnst persónulega og kynnst verkum hvers annars í undanfara hátíðarinnar, eftir aðstæðum, hist í gegnum netið og deilt myndum af og upplýsingum um listsköpun sína.

Arnar Ásgeirsson skoðar hugmyndir um uppruna, þróun sköpunarverka og náttúrufyrirbæra. Verkin fjalla um hvernig söguleg fyrirbæri þróast með tímanum í ófyrirsjáanlegar og jafnvel kómískar áttir. Arnar stundaði myndlistarnám í Gerrit Rietveld Academie (BA) og Sandberg Institute (MA) í Amsterdam.

Arnar vinnur með ýmiskonar efni, gerir m.a. stóra skúlptúra úr sápu sem hann sker í ýmiskonar mynstur og myndefni er eiga uppruna sinn í myndmáli Norrænnar goðafræði. Sama myndmál kemur einnig fram í teikningum hans og bókverkum.

Sýningin í Midpunkt endurspeglar það hversu áhugavert það getur verið að leiða saman ólík verk, sem eiga sér þó ákveðna snertifleti í formi, litanotkun og hugsun, og skapa áhugaverða sýningu fyrir gesti sem kemur á óvart og vekur áhuga.