Matthías Már Einarsson

 
 
Matthías Már Einarsson

Matthías Már Einarsson

Matthías Már Einarsson fæddist í Reykjavík 1995, en hefur síðustu ár búið í Danmörku með móður sinni. Fyrir nokkrum árum byrjaði hann að tálga trjágreinar sem hann finnur nálægt heimili þeirra og unir sér í kyrrð og ró við sköpunarstarfið á verkstæði sínu. Til er verk sem hann tálgaði úr svörtu dauðu tré, en innan í því skein gljáandi hvítur kjarni, fegurð sem hulin var augum en Matthías kallaði fram af gjörhygli. Verk Matthíasar eru eins einföld og unnt er að rista í eina spýtu, að gefa henni líf með hnífsbragði svo hún veki athygli augans. Svo einbeitt og listfeng nálgun leiðir oft til einfaldra lausna, að ganga til starfa með því hugarfari að skapa aðlaðandi verk úr náttúrunni og gefa öðrum kost á því að njóta þeirra. Flest verk Matthíasar eru lík innbyrðis, dregin fíngerðum dráttum, en nokkur þeirra eru frábrugðin, með stórum kvistum og naglahausum í röðum sem skreyta ílöng formin. 


Matthías hefur áður sýnt á List án landamæra árið 2015 þar sem hann sýndi verk í Norræna húsinu. Ári síðar vann Matthías í vikutíma ásamt Sindra Leifssyni myndlistarmanni á verkstæði Myndhöggvarafélagsins, og sýndu þeir svo í Hannesarholti á List án landamæra. 


Matthías sýnir ný tréverk á List án landamæra 2019 þar sem hann blandar saman útskurði, litum og ólíku efni.