Sýningar og viðburður 2024

 Hér má sjá smá yfirlit yfir liðna dagskrá Listar án landamæra 2023

 Á sýningunni Við sjáum óvænt abstrakt er teflt saman þremur hópum listamanna af ólíkum kynslóðum sem koma úr mismunandi áttum. Fyrstan má telja hóp listamanna sem fram kom í kringum seinni heimsstyrjöld og unnu með hugmynda- og fagurfræði abstrakt myndlistar. Þessir listamenn víkkuðu á markvissan hátt út heim myndrænnar skynjunar með virku samtali við listasöguna og leituðu nýrra og persónulegra leiða í myndmáli sínu. Í öðru lagi eru sýnd verk fatlaðra listamanna sem vinna beint og óheft á flötinn, eru í sterku samtali við sinn innri tilfinningaheim og auðvitað líka upplifun sína af heiminum og margs konar myndlist. Í þriðja lagi eru sýnd verk annarra samtímalistamanna sem hafa hlotið formlega menntun á sviði myndlistar og vinna á ólíkan hátt og vinna líka abstrakt myndverk. Þessir listamenn vinna að list sinni á tímum þegar nánast allt er leyfilegt og mögulegt – og samtal við listasöguna er ekki endilega efst á baugi. Frekar má segja að samtal þeirra sé við ólíka efnisheima og raunveruleika þar sem hversdagslegir hlutir og fyrirbrigði fá nýtt og óvænt hlutverk og samhengi.

Á sýningunni Við sjáum óvænt abstrakt renna þessir ólíku heimar þriggja hópa saman. Skynjar áhorfandinn verk Guðmundu Andrésdóttur á nýjan og óvæntan hátt við hlið verks Ásmundar Stefánssonar? Og sjáum við list Önnu Hrundar Másdóttur á annan hátt þegar við getum horft í senn á verk hennar og Nínu Tryggvadóttur? Sýningin er á vissan hátt tilraun til að víkka út abstrakthugtakið og um leið tengja milli ólíkra heima sem hafa ekki skarast mikið fram að þessu.

Sumir þessara listamanna hafa hingað til einkum sýnt verk sín undir merkjum Listar án landamæra en þeim er nú í fyrsta skipti boðið að sýna verk sín á Listasafni Íslands. Verk fatlaðra listamanna eru sett í samhengi við verk þekktari listamanna og við það öðlast áhorfandinn ferska sýn sem víkkar út tilfinningu hans fyrir hugtakinu abstrakt. Það er mikilvægt að listasöfn endurskoði sífellt hlutverk sitt og stöðu í samfélaginu og sýningin Við sjáum óvænt abstrakt er þáttur í þeirri endurskoðun.

ListaFÓLK

Anna Hrund Másdóttir

Arna Ýr Jónsdóttir

Ásgeir Ísak Kristjánsson

Ásmundur Stefánsson

Davíð Örn Halldórsson

Gerður Helgadóttir

Guðmunda Andrésdóttir

Haraldur Jónsson

Hjörleifur Sigurðsson

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Kolbeinn Jón Magnússon

Lára Lilja Gunnarsdóttir

Nína Tryggvadóttir

Páll Haukur Björnsson

Sigurður Reynir Ármannsson

Steinunn Önnudóttir

Svavar Guðnason

Þorvaldur Skúlason

Sýningarstjóri

Kristinn G. Harðarson


Hjartslættir

Heartbeats

12. október 2024 - 4. janúar 2025

Í Gerðubergi

Hjartans mál eru stóru málin en líka lítil augnablik milli ástvina. Hjörtu eru rómantísk en geta líka verið hrollvekjandi. Hjörtu tákna ástina en líka líf og dauða. Hjörtu slá í takt, hjúkrunarfræðingur mælir blóðþrýstinginn og hjartaknúsarinn gefur þér bangsa á valentínusardaginn.

Listafólk

Ásta Olsen

Elfa Björk Jónsdóttir

Ingiríður Halldórsdóttir

Jóna Lára Ármannsdóttir

Óskar Theódórsson

Pálína Erlendsdóttir

Vigdís Sigurlaug Kjartansdóttir

Þórunn Klara Hjálmarsdóttir


AMERÍSKIR DRAUMAR

AMERICAN DREAMS

19. október - 15. nóvember 2024

Í Listasal Mosfellsbæjar

Samsýning myndlistarfólks sem á einn eða annan hátt fjalla um sögu, menningu eða áhrif Bandaríkjanna.

LISTAFÓLK

Kaja María Meleró Valsdóttir

Kaja María Meleró Valsdóttir er fædd 13. maí 2003. Hún lauk námi úr Myndlistaskóla Reykjavíkur, eins árs nám fyrir fatlað fólk, fyrr á þessu ári 2024. Kaja vinnur teikningar, málverk, klippimyndir og leirverk en árið 2023, nánar tiltekið 11. september, ákvað hún að heiðra minningu þeirra sem féllu í árásinni á Tvíburaturnana í New York með því að skrifa upp öll nöfn þeirra. Þetta gerði hún milli kennslustunda í myndlistaskólanum. Gjörningurinn tók marga mánuði, eða til 3. maí ársins á eftir. Samhliða verkefninu safnaði Kaja öllum upplýsingum sem hún gat um atburðinn, á neðsta blaði í hægri “turnininum” eru nokkrar staðreyndir sem hún safnaði saman. Verkið er átakanleg og einlæg tilraun manneskju sem fæddist eftir 9/11 til að átta sig á stærðargráðu þessa hryllilega atburðs, og lifandi dæmi um það að saga nútímans skiptist í tímabilin fyrir og eftir 9. september 2001.

Lilja Dögg Birgisdóttir

Lilja Dögg er fædd 17. október 1970. Lilja Dögg var í Öskjuhlíðarskóla og hefur lengst af unnið á vinnustofunni Ás. Í vor útskrifaðist hún af eins árs diplómanámi í myndlist fyrir þroskahamlaða. Lilja Dögg elskar að mála, dansa og fara í bíó og leikhús. Verkið hér til sýnis samanstendur af átta málverkum, kúrekahöttum og myndbandi. Málverkin og hattarnir endurspegla hugarheim listakonunnar sem einkennist af gleði og ævintýrum. Gleðin birtist í verkunum sem sterkir og fallegir litir sem valdir eru af innsæi. Ólíkum formum er beitt og pensilförin eru í senn bæði gróf og fín. Fígúrur eru á ferð og flugi og doppur í ýmsum litum lýsa upp myndfletina. Hattarnir og myndbandið tengjast áhuga hennar á villta vestrinu, kúrekum og bíómyndum og einnig æskuminningum hennar með fjölskyldunni sinni.

Ian Anthony Cathcart-Jones

Ian Anthony Cathcart-Jones fæddist 7. september 1998 í Reykjavík. Hann er búsettur í Breiðholti og vinnur á vinnustofu Geitunganna í Hafnarfirði. Ian hefur frá barnsaldri haft unun af því að teikna og þá sérstaklega eftir fyrirmyndum. Ian hefur mikinn áhuga á kvikmyndum og sjónvarpi og hefur hann síðustu árin gert ótrúlega nákvæmar eftirmyndir af kredit-listum kvikmynda. Skrif / teikningar Ians af kreditlistum Hollywoodmynda eru fallegar á að líta en vekja líka upp hugmyndir um þann fjölda fólks sem kemur að gerð hverrar kvikmyndar. Langa textann sem fæstir gefa sér tíma í að lesa í lok bíóferðar hefur hann gaumgæfilega stúderað og komið snyrtilega niður á blað. Framleiðslan hjá Ian er mjög mikil, til sýnis eru tugir verka en hann hefur gert nokkur hundruð. Fjöldinn endurspeglar líka það mikla magn af bandarískum kvikmyndum sem koma út á hverju ári.

Guðrún Lára Aradóttir

Guðrún Lára Aradóttir fæddist árið 1951. Guðrún Lára gekk í Brúarlandsskóla í Mosfellsbæ, Höfðaskóla í Reykjavík og lauk tveggja ára námi í Húsmæðraskólanum að Staðafelli. Hún hefur auk þess sótt mörg námskeið á vegum Fjölmenntar á Selfossi. Guðrún Lára hefur unnið lengst af hjá Styrktarfélaginu Ási og þá mest á saumastofunni. Guðrún Lára flutti til Sólheima í Grímsnesi fyrir um 15 árum og hefur starfað þar síðan. Á Sólheimum hefur hún starfað í vefstofu, leirgerð, kertagerð og smíðastofu. Guðrún Lára hefur tekið þátt í leikfélagi Sólheima og sýnt með því m.a. í Þjóðleikhúsinu og í Madrid á Spáni. Þá hefur hún verið í Sólheimakórnum, bjöllukór Sólheima og stundað tónlistarnám á Sólheimum. Guðrún Lára hefur sýnt útsaumsmyndir, leirverk og verk unnin í tré á fjölda samsýninga á Sólheimum. Hún hefur einnig tekið þátt í sýningum á vegum Listar án landamæra. Verkið sem hér er til sýnis er af stórstjörnunni Dolly Parton.

Vilhjálmur Guðmundsson

Vilhjálmur Guðmundsson er fæddur 25. júni 1973. Hann stundaði nám í Öskjuhlíðarskóla tipl 16 ára aldurs. Listrænir hæfileikar komu snemma í ljós á barnsaldri. Hann hafði mikinn áhuga á að líma flugvélamódel sem barn. Hann hafði snemma mikinn áhuga á að horfa á kvikmyndir og á unglingsárum teiknaði hann í mörg ár eingöngu hákarlamyndir. Fyrir ca 25 árum síðan varð hann heillaður af Suðurríkjunum og í kjölfarið byrjaði hann að teikna efni sem tengdist Suðurríkjahernum. Teikningarnar hér til sýnis sýna soldáta beggja megin við Þrælastírðið 1861-65. Vilhjálmur eða Villi eins og hann vill láta kalla sig, er sjálfmenntaður í sinni list. Í dag þreifar hann sig áfram með allskonar hugmyndir eins og að taka myndir á símann af skýjum, teikna myndir af eldgosum og saga út í tré.


 

Svartir fuglar

 

Glænýtt dansverk eftir Láru Stefánsdóttur var frumsýnt í Tjarnarbíó á dagskrá Listar án landamæra í október 2024

Fréttaumfjöllun

  • RÚV: „Lára hefur dansað frá fæðingu fæddist dansandi og það er magnað þegar dansinn er eitthvað sem er í taugunum, frumunum og húðinni,“

  • MBL: „Svartir fuglar var grípandi og fallegt verk. Heildarmyndin er skýr og verkið flæddi áreynslulaust.“

  • Rauða borðið: Viðtal við Láru Stefánsdóttur og Láru Þorsteinsdóttur

Verkið er spunnið út frá ljóðum Elísabetar Jökulsdóttur, úr bókinni sem nefnist “Sjáðu, sjáðu mig, það er eina leiðin til að elska mig”. Þetta eru myndræn sorgarljóð sem gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Allir geta tengt við ljóðin því allir leitast við að tengjast sinni innri fegurð á lífsleiðinni en þurfa oftar en ekki að takast á við allskonar skuggahliðar í leitinni að ljósinu. Eru ef til vill allir með einhvern fallandi engil innra með sér eða púka sem fær ekki sigrað nema í leitinni að ástinni og kærleikanum?

Verkið er sérstaklega samið fyrir Láru Þorsteinsdóttur. Með henni dansa tveir dansarar, þau Íris Ásmundardóttir og Sigurður Edgar Andersen. Þá tekur Elísabet Jökulsdóttir ljóðskáld einnig þátt í sýningunni. Danshöfundur verksins er Lára Stefánsdóttir. Tónlistin er úr öllum áttum. 

Um höfundinn

Lára Stefáns danshöfundur/dansari hefur leitt alþjóðlegar dansvinnusmiðjur víða erlendis og þ.á.m með  ólíkt fötluðum einstaklingum í Svíþjóð 2016. Dans-vinnustofur Láru eru skapandi út frá ýmsum aðferðum sem hún hefur tileinkað sér í gegnum tíðina á löngum ferli sem dansari og danshöfundur. Árið 2021 samdi hún verkið HANNAH FELICA fyrir tvo dansara úr danshópnum SPINN í Gautaborg sem er samsettur af fötluðum og ófötluðum dönsurum. Þá má nefna að Lára S  leiddi nýverið dansvinnustofu í  Búlgaríu, Burgas,  með 10 ungum dönsurum, sem lauk með afar vel heppnaðri sýningu á verkinu ANDA.