Listamaður hátíðarinnar 2017
Gígja Guðfinna Thoroddsen - Gía (1957) er listamaður hátíðarinnar í ár! Gígja var heiðruð á Kjarvalsstöðum í dag og afhenti borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, henni blómvönd og viðurkenningarskjal.Gía mun opna einkasýningu í Íslenska grafíksalnum 15. apríl nk. Einnig munu verk hennar prýða allt kynningarefni hátíðarinnar í ár, plaggöt, póstkort og annað myndefni. Við óskum Gíu innilega til hamingju með þennan verðskuldaða heiður.Eftirfarandi texta skrifaði Margrét M. Norðdahl um Gíu:Gígja býr og starfar í Reykjavík og notar listamannsnafnið Gía. Verk hennar hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið, og sem listamaður er hún í stöðugri þróun hvað varðar myndefni, efnisval og nálgun. Mörg verka Gígju byggja á reynslu hennar af því að vera kona og eins notandi geðheilbrigðiskerfisins. Hún hefur einnig gert verk í anda annarra listamanna úr listasögunni og má þar nefna Toulouse Lautrec og Leonardo Da Vinci. Hún gerir málverk og teikningar með fjölbreyttu myndefni, m.a. af þekktu fólki úr samtímanum og mannkynssögunni.Gía stundaði nám hjá Hring Jóhannessyni, listmálara í Myndlistaskóla Reykjavíkur 1975, Vallekille lýðháskólanum í Danmörku 1975 og sótti þriggja mánaða teikninámskeið í Árhúsum, Danmörku 1976 og leiklist hjá Helga Skúlasyni, leikara 1977. Gígja hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Verk hennar eru í eigu aðila líkt og Safnasafnsins, Landspítalans, Krabbameinsfélagsins og Friðarseturins Höfða og fyrrum og núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Síðasta einkasýning hennar var sumarið 2016 á Safnasafninu á Svalbarðsströnd og hlutu verk hennar mikið lof.