Starfsmannabreytingar hjá List án landamæra
Við hátíðina List án landamæra starfa tveir starfsmenn, einn listrænn stjórnandi og einn framkvæmdastjóri.
Í janúar kom Jóhanna Ásgeirsdóttir listrænn stjórnandi hátíðarinnar aftur til starfa eftir fæðingarorlof, en þar áður stýrði hún hátíðinni árin 2021 og 2022. Á meðan Jóhanna var í orlofi starfaði reynsluboltinn Íris Stefanía sem listrænn stjórnandi, en Íris stýrði List án landamæra árin 2014-2017. Við áramót ákvað Davíð Freyr Þórunnarson framkvæmdastjóri að snúa sér að öðrum verkefnum og kvaddi hátíðina eftir þriggja ára starf. Íris og Davíð stýrðu glæsilegri dagskrá allt árið 2023 af tilefni 20 ára afmæli hátíðarinnar.
Við tók ráðningarferli í janúar og febrúar en 1. mars hóf Ása Fanney Gestsdóttir störf sem framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Ása Fanney hefur viðamikla reynslu af lista- og menningarstörfum bæði á Íslandi og erlendis. Hún er með meistaragráðu bæði í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og í óperusöng frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart, þar sem hún bjó og starfaði við sviðslistir í tólf ár. Á síðustu árum hefur Ása Fanney m.a. stýrt hátíðunum Óperudögum í Reykjavík og Myrkum músíkdögum auk fjölda annarra listviðburða. Hún hefur verið ötul í félagsstörfum og látið sig jafnréttismál miklu varða. Hún hefur sinnt rannsóknum í samstarfi við hagsmunasamtök listafólks og haldið fyrirlestra, t.a.m. um jafnrétti í sviðslistum. Ása Fanney hefur farið með formennsku í Klassís, fagfélagi klassískra söngvara og setið í jafnréttisnefnd Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, þar sem hún starfaði sem viðburðastjóri og alþjóðafulltrúi.
Jóhanna og Ása hlakka til að setja saman spennandi dagskrá fyrir árið 2024, fylgist með hér á vefnum og á samfélagsmiðlum!