Listafólk hátíðarinnar 2024!

Sunnudag 12. maí fór fram verðlaunaathöfn Listar án landamæra 2024 í Safnahúsinu. Borgarstjóri Reykjavíkur Einar Þorsteinsson og listrænn stjórnandi Listar án landamæra, Jóhanna Ásgeirsdóttir, afhendu fern verðlaun fyrir framan fullan sal gesta.

Verðlaunaflokkarnir eru fjórir:

  1. Ein verðlaun fyrir listamanneskju hátíðarinnar

  2. Ein verðlaun fyrir listhóp hátíðarinnar

  3. Einn listamaður hlaut heiðursverðlaun

  4. Einn listhópur hlaut heiðursverðlaun

Elín Sigríður María Ólafsdóttir er listamanneskja hátíðarinnar 2024

Elín er myndlistarkona, leikkona og skáld. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningu á Café Mokka. Meðal samsýninga er sýningin Áhrifavaldar á Safnasafninu á Svalbarðsströnd og samstarfssýning með Kristínu Gunnlaugsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar á dagskrá Listahátíðarinnar List án landamæra. Elín hefur sýnt erlendis hjá gallerí Inuti í Stokkhólmi. Hún hefur stigið á svið með Tjarnarleikhúsinu og sinnir líka ráðgjöf um inngildingu sem meðlimur Listvinnslunnar. Á hátíðinni 2024 verður Elín með sýningu í Sverrissal Hafnarborgar. Til hamingju Elín!


fjölleikhúsið er listhópur hátíðarinnar 2024

Fjölleikhúsið var stofnað 2022 utan um leiklistarnámskeið í Fjölmennt undir leiðsögn Margrétar Pétursdóttir, leikkonu. Þau hafa sannarlega skotist hratt á toppinn, þau héldu sína fyrstu leiksýningu á dagskrá Listar án landamæra í Gerðubergi 2022 en svo í desember 2023 voru þau með heilan leikþátt á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu. Fjölleikhúsið setur á svið frumsamin leikverk, þau spinna saman sketsa og grín í kringum aðstæður eins og partí (fyrsta leikverkið) eða í leigubíl (eins og í verkinu Hæ Taxí) sem þau sýndu í Þjóðleikhúsinu og gera það með miklum húmor en líka ákveðinni einlægni og hjartnæmni. Það er ekki alveg komið í ljós hvernig næsta verkið þeirra verður, en við vitum að það verður á dagskrá hjá okkur í haust! Til hamingju Fjölleikhús!

Snorri Ásgeirsson hlaut heiðursverðlaun til einstaklings!

Snorri byrjaði að fást við myndlist fyrir um 25 árum síðan í listasmiðju Bjarkarás. Hann hefur tekið þátt í mörgum sýningum á vegum „ List án landamæra „ m.a. í Listasal Mosfellsbæjar 2013 ásamt Helga Þorgils Friðjónssyni myndlistarmanni. Á yfirlitssýningu Snorra í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík 2020 var gefin út bók með úrvali af myndum eftir Snorra. Árið 2022 tók Snorri þátt í sýningarröðinni Umhverfing ásamt Halldóri bróðir sínum í Ólafsdal í Dölunum. Á hátíðinni 2024 verður Snorri með sýningu í Gallerí Fold. Til hamingju Snorri

Bjöllukór Tónstofu Valgerðar hlaut heiðursverðlaun til listhóps!

Bjöllukórinn var stofnaður haustið 1997 af Valgerði Jónsdóttur skólastjóra Tónstofu Valgerðar. Í dag eru meðlimir kórsins tólf. Ásdís Ásgeirsdóttir, Auðun Gunnarsson, Gísli Björnsson, Gauti Árnason, Ólafur Snævar Aðalsteinsson, Edda Sighvatsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Rut Ottósdóttir, Ástrós Yngvadóttir, Hildur Sigurðardóttir, Erna Sif Kristbergsdóttir, og Íris Björk Sveinsdóttir. 

Bjöllukórinn hefur komið fram á vegum Listar án landamæra og í tvígang á Listahátíð í Reykjavík. Þau hafa komið fram með tónlistarmönnum á borð við Möggu Stínu, Sigur Rós og Retro Stefsson. Kórinn hefur einnig tekið þátt í verkefnum í Noregi, Finnlandi og í Lettlandi.  Síðasta ævintýri Bjöllukórsins var þátttaka í jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þau hafa gefið út tvær plötur, árið 2012 og 2017, sem má finna á Spotify. Í haust bíða svo fleiri spennandi verkefni kórsins bæði hérlendis og erlendis, að sjálfsögðu munu þau halda stórtónleika á dagskrá Listar án landamæra. Til hamingju Bjöllukór!

Myndir af viðburðinum

Ljósmyndari: Leifur Wilberg Orrason

Um list án landamæra

List án landamæra er hátíð sem stendur fyrir inngildingu fatlaðs fólks í menningu á Íslandi. Við erum með það einfalda markmið að fatlað listafólk fái verðskuldaða athygli og aðgang að tækifærum, við viljum mynda tengsl, brúa bil og brjóta niður múra. Hátíðin væri ekkert án listafólksins sem tekur þátt í henni, það eru þau sem eru að brjóta múra, þrýsta á breytingar og láta í sér heyra, en það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að hlusta og taka til hendinni við að vinna að raunverulegri inngildingu.

Hátíðin í ár mun eiga sér stað í október, við verðum með sýningar og viðburði víða um höfuðborgarsvæðið og vonandi líka eitthvað fyrir utan höfuðborgarsvæðið. 

Þakkir

Við þökkum borgarstjóra Reykjavíkur, Einari Þorsteinssyni, kærlega fyrir komuna á athöfnina. 

Við þökkum valnefndinni fyrir sín störf, í henni sátu:

  • Sindri Ploder, listamaður hátíðarinnar 2023

  • Pétur Magnússon, María Gísladóttir og Anna Henriksdóttir frá Hlutverkasetri, listhóp hátíðarinnar 2023

  • Ásrún Magnúsdóttir, sviðshöfundur og fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna

  • Auður Lóa Guðnadóttir, myndlistarmaður og fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna

  • Ása Fanney Gestsdóttir, framkvæmdastjóri Listar án landamæra

Þakkir til Listasafn Íslands fyrir að hýsa viðburðinn í Safnahúsinu.

List án landamæra er styrkt af Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarbæ, Öryrkjabandalaginu og Hinu Húsinu.

 
List án landamæra