Til minningar um Gíu - Gígju Guðfinnu Thoroddsen
Stjórn og starfsfólk Listahátíðarinnar List án landamæra votta ástvinum Gígju Guðfinnu Thoroddsen innilegustu samúðarkveðjur. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að starfa með Gígju á vettvangi hátíðarinnar allt frá árinu 2006 og þökkum fyrir hennar stóra framlag til hátíðarinnar og íslenskrar myndlistar. Fráfall hennar er mikill missir fyrir íslenskt menningarlíf.
Gígja Guðfinna Thoroddsen, sem gekk undir listamannsnafninu Gía, var valin listamaður hátíðarinnar árið 2017 en þar á undan hafði hún tekið þátt í hátíðinni frá því árið 2006 þegar hún hélt einkasýningu í miðborg Reykjavíkur. Sjálfsmynd Gígju prýddi forsíðu dagskrárbæklings hátíðarinnar árið 2006 þar sem hún túlkaði sjálfa sig sem pönkara með bláan hanakamb og aftur prýddu verk Gígju allt dagskrárefni hátíðarinnar árið 2017.
Gía stundaði nám hjá Hring Jóhannessyni, listmálara í Myndlistaskóla Reykjavíkur 1975, Vallekille lýðháskólanum í Danmörku 1975 og sótti þriggja mánaða teikninámskeið í Árhúsum, Danmörku 1976 og leiklist hjá Helga Skúlasyni, leikara 1977. Gía hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Verk hennar eru í eigu aðila líkt og Safnasafnsins, Landspítalans, Krabbameinsfélagsins, Friðarseturins Höfða og fyrrum og núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Meðal einkasýninga GÍU var sýning á Safnasafninu á Svalbarðsströnd árið 2016 og hlutu verk hennar mikið lof.
Verk Gíu hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið. Mörg verka hennar byggja á hennar eigin reynslu að vera kona og þess að vera notandi geðheilbrigðiskerfisins. Hún gerði málverk og teikningar með fjölbreyttu myndefni, m.a. af þekktu fólki úr samtímanum og mannkynssögunni. Gía notaðist við óhefðbundna liti í málverkum sínum á borð við gull, silfur og kopar.
Það er með mikilli virðingu og þakklæti sem við kveðjum Gígju Guðfinnu Thoroddsen. Blessuð sé minning þessarar einstöku listakonu.
Núverandi stjórn og starfsfólk vottar innilegar samúðarkveðjur, jafnframt fyrir hönd stjórnar, stjórnenda og starfsfólks hátíðarinnar frá árinu 2006 og til dagsins í dag.