„Við sjáum það sem við viljum sjá“
Einkasýning listamannseskju hátíðarinnar 2024
Myndlistarsýning í Sverrissal (1. hæð) í Hafnarborg, Strandgötu 34 í Hafnarfirði.
Opnun 29. ágúst klukkan 20:00. Sýning stendur til 3. nóvember.
Elín Sigríður María Ólafsdóttir (f. 1983) er listamanneskja hátíðarinnar Listar án landamæra 2024. Elín er myndlistarkona, leikkona og skáld. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningu á Café Mokka. Meðal samsýninga má nefna sýninguna Áhrifavalda á Safnasafninu á Svalbarðsströnd og samstarfssýningu með Kristínu Gunnlaugsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar á dagskrá Listar án landamæra 2012. Elín hefur einnig sýnt erlendis hjá galleríinu Inuti í Stokkhólmi. Þá hefur hún stigið á stokk með Tjarnarleikhúsinu, auk þess sem hún sinnir ráðgjöf um inngildingu sem meðlimur Listvinnzlunnar. Elín lauk diplómanámi í myndlist frá Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 2017.
Á þessari einkasýningu listakonunnar getur að líta úrval verka sem spanna feril hennar frá upphafi. Efnistök í verkum Elínar eru jafnan ævintýraleg og vinnur hún gjarnan með sjálfið á mismunandi hátt í myndheimi sínum. Elín hvetur gesti sýningarinnar til að nota ímyndunarafl sitt á sýningunni og jafnvel búa til stuttar sögur eða ljóð sem tengjast myndverkunum. Þá gefst gestum sýningarinnar færi á að stíga á stokk og fara með ljóð eða æfa upplestur af einhverju tagi á meðan sýningunni stendur – í samtali við skapandi vinnu Elínar.
Aðgengi í Hafnarborg er GRÆNT
Aðgengi er gott: skábrautir eru við þröskulda, lyftur á milli hæða, aðgengilegt salerni og blátt bílastæði nálægt húsi.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.